Jón Sigurðsson iðnaðar og viðskiptaráðherra, og fulltrúar Alþýðusambands Íslands, Neytendasamtakanna og Neytendastofu lögðu á það höfuðáherslu á fundi sínum um eftirfylgni með aðgerðum ríkisstjórnarinnar til lækkunar á matvælaverði í dag að almenningur fylgist vel með verðlagsþróun og veiti þannig versluninni aðhald og standi vörð um eigin hag.
Ingibjörg Guðmundsdóttir, fulltrúi ASÍ á fundinum, sagðist treysta því að allir eigi eftir að leggjast á eitt til að breytingarnar skili sér til heimilanna. Þá sagði hún stóraukið verðlagseftirlit vegna breytinganna þegar vera komið í gang og að sambandið muni fylgjast með verðlagi á 6 til 800 vörutegundum í 90 verslunum bæði fram að breytingum og eftir að þær hafa átt sér stað. Þessar upplýsingar verða þó ekki aðgengilegar almenningi fyrr en eftir 1. mars þegar unnið hefur verið úr þeim enda segir Ingibjörg þær að öðrum kosti geta veitt kaupmönnum óeðlilega yfirsýn yfir þróunina í öðrum verslunum. Upplýsingarnar muni þó nýtast sambandinu við það eftirlit sem því hafi verið falið að framkvæma og einnig verði þær birtar þegar þeim hafi verið safnað saman og unnið hafi verið úr þeim.
Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, sagði mikilvægt að þeim skilaboðum verði komið til þeirra aðila sem eigi að lækka vöruverð í kjölfar breytinganna að þeir muni bæði verða undir smásjá þeirra aðila sem eiga aðild að þeim eftirlitssamningi sem gerður var í dag og almennings. Enda hafi viðbrögð almennings við verðhækkunum að undanförnu tekið af allan vafa um það að neytendur ætli sér að hafa vakandi auga með þróuninni á næstu mánuðum.
„Við höfum fengið fjölmörg erindi frá neytendum varðandi verðbreytingar að undanförnu sem benda skýrt til þess að almenningur ætli sér að fylgjast grannt með því að breytingarnar skili sér til heimilanna,” sagði hann. „Ég er bjartsýnn á að þetta virka eftirlit neytenda muni skila góðum árangri enda tel ég ekki að neinn vilji sitja undir því að vera úthrópaður opinberlega fyrir að stigna því í vasann sem til stóð að færi í vasa almennings.”
Spurður um viðurlög við slíku sagði hann ákveðna möguleika á aðgerðum verði eftirlitsaðilarnir varir við óeðlilega verðlagsþróun í tengslum við breytingarnar. Þó verði að taka það með í reikninginn að verhækkanir geti verið af ýmsum toga og því verði að skoða hvert tilfelli út af fyrir sig áður en ráðist sé í slíkar aðgerðir. „Verðum við hins vegar vör við að einhver ætli að taka til sín meira af þeim fjármunum sem losna við breytingarnar áskiljum við okkur rétt til að upplýsa almenning um það,” sagði hann.