Skattar á tekjur og hagnað námu alls 126 milljörðum króna á síðasta ári og jukust um 25 milljarða króna milli ára eða 24,5%. Tekjuskattur einstaklinga var 78 ma.kr. og jókst um 13,3% en lögaðilar greiddu 31 ma.kr. sem er 104% aukning.
Fjármagnstekjuskattur nam tæpum 17 ma.kr., svipaðri fjárhæð og 2005, en 5,6 ma.kr. af skattinum á því ári greiddi ríkissjóður vegna sölu Landssímans. Innheimta eignarskatta nam 9 ma. kr. og tryggingagjalda 37 ma.kr. Innheimta almennra veltuskatta nam 176 ma.kr. á árinu. Þar af nam virðisaukaskattur 122 ma.kr. og jókst um 3,2% að raunvirði.
Handbært fé frá rekstri ríkissjóðs jókst um 65,7 milljarða króna á síðasta ári sem er 33,7 milljarða króna hagstæðari útkoma en á sama tíma 2005. Tekjur reyndust tæpum 40 milljarða króna hærri en 2005, ef undanskildar eru tekjur vegna sölu Landssímans hf., á meðan gjöldin hækkuðu um rúma 6 milljarða króna.
Innheimtar tekjur ríkissjóðs námu 381 ma.kr. á árinu 2006. Á árinu 2005 voru tekjurnar 342 ma.kr. (án 57 ma.kr. söluhagnaðar af Landssímanum).
Greidd gjöld nema 314,7 ma.kr. og hækka um 6,3 milljarða frá fyrra ári. Vaxtagreiðslur lækka um 7,8 milljarða, einkum vegna þess að stór flokkur spariskírteina var á innlausn í apríl 2005. Þá lækkar greiddur fjármagnstekjuskattur um 5,8 milljarða milli ára vegna sölu hlutabréfa ríkisjóðs í Landssímanum hf. í fyrra. Að vaxtagreiðslum og fjármagnstekjuskatti undanskildum hækka gjöldin um 20 milljarða eða 7%, að því er segir í vefriti fjármálaráðuneytisins.
Mest munar um 6,7 ma.kr. hækkun til heilbrigðismála og 4,4 ma.kr. til almannatrygginga og velferðarmála. Þá hækka greiðslur til almennar opinberrar þjónustu um 3,9 ma.kr. og til menntamála um 3,2 ma.kr. Lántökur ársins nema 115,7 milljörðum króna og skýrast að mestu af erlendri lántöku að fjárhæð 1 milljarður evra, til styrkingar gjaldeyrisforða Íslands. Andvirði lánsins um 90 milljarðar króna var endurlánað til Seðlabanka Íslands sem hefur umsjón með gjaldeyrisforðanum. Skýrir það jafnframt 91 milljarða útstreymi fjármunahreyfinga.
Greiddir voru 4 milljarðar til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins í því skyni að lækka framtíðarskuldbindingar ríkissjóðs. umtalsvert og framleiðsluspennan var það ár metin 3,8% af framleiðslugetu.