Viðskiptaráðherra, Jón Sigurðsson, hefur gert samkomulag við Alþýðusamband Íslands, Neytendasamtökin og Neytendastofu um eftirfylgni með aðgerðum ríkisstjórnarinnar til lækkunar á matvælaverði. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar eiga að leiða til 14-16% lækkunar á matvælalið vísitölu neysluverðs að viðbættri veitingaþjónustu. Mikilvægt er að lækkunin skili sér að fullu til neytenda í lægra matvælaverði, að því er fram kom á blaðamannafundi.
Fylgst verður náið með breytingum á verðlagi og reynt að tryggja það að almenningur sé vel upplýstur um breytingarnar, að sögn Jóns.
Lögð er rík áhersla á að almenningur taki virkan þátt í verðlagseftirliti til að tryggja það að framkvæmd þeirra kjarabóta sem felast í aðgerðunum skili sér.
Þann 9. október 2006 kynnti ríkisstjórnin aðgerðir til að lækka matvælaverð á Íslandi. Markmiðið með aðgerðunum er að matvælaverð verði sambærilegt við meðalverð á matvælum á Norðurlöndunum eftir að breytingarnar taka gildi, 1. mars n.k.