Í dag greindi viðskiptaráðherra frá því hvernig stjórnvöld hyggjast fylgja eftir þeim aðgerðum ríkisstjórnarinnar að lækka matvælaverð hér á landi. Til að fylgja þessu eftir hefur viðskiptaráðherra gert samkomulag við Alþýðusamband Íslands, Neytendasamtökin og Neytendastofu til þess að fylgjast vel með öllu verðbreytingum á matvörumarkaði. Ráðherra lagði jafnframt áherslu á að mikilvægt sé að efla neytendavitund landsmanna.
Í október sl. greindi ríkisstjórnin frá því að hún hygðist lækka virðisaukaskatt á matvæli úr 14% í 7% og á blaðamannafundi í viðskiptaráðuneytinu í dag sagði Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, að fylgst verði náið með áhrifum breytinganna á verðlag og reynt að tryggja að almenningur sé vel upplýstur um aðgerðirnar og tilætluð áhrif þeirra.
Bæði Jón og talsmenn ASÍ, Neytendasamtakanna og Neytendastofu lögðu á það áherslu að almenningur taki virkan þátt í verðlagseftirliti til að tryggja megi að lækkun á matvælaverði skili sér, enda mikið hagsmunamál að ræða.
Þá kom fram á fundinum að aðgerðirnar taki til um 90 verslana á landinu og nái jafnframt yfir 600-800 vörutegunda.
Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, sagði á fundinum að það væri mikilvægt að söluaðilar átti sig á því að þeir séu undir „smásjá almennings“. Hann benti á að Neytendasamtökunum berist fjölmargar ábendingar um verðbreytingar verslana frá almenningi.
Jóhannes kveðst vera bjartsýnn á að aðgerðirnar muni skila tilætluðum árangri og sjái til þess að almenningur muni njóta þeirra kjarabóta sem felast í lækkun matvælaverðs. Hann segir að enginn vilji vera úthrópaður fyrir að hafa stungið því í vasann sem almenningur átti að fá.
Þess má svo geta að Samkeppniseftirlitið hefur unnið að víðtækri athugun á matvörumarkaði, sem gengið hefur vel. Fram hefur komið í Morgunblaðinu að Eftirlitið hefur nýhafið athugun á viðskiptasamningum birgja og endurseljenda, s.s. matvöruverslana og veitingahúsa. Beinist gagnaöflun að um 70 birgjum. Þar er m.a. verið að afla upplýsinga um verðþróun í heildsölu, þ.m.t. þær verðhækkanir sem átt hafa sér stað af hálfu birgja síðustu vikur.