Ákveðið hefur verið að ráðast í endurbyggingu á gömlu bögglageymslu KEA á Akureyri en húsið hefur staðið autt í langan tíma. Í dag var undirritaður samningur á milli eiganda hússins og eigenda veitingastaðarins Friðriks V. um uppbyggingu þess og leigu til 10 ára.
Gamla bögglageymslan, sem stendur við Kaupvangsstræti 6, hefur sett mikinn svip á Gilið og þar með bæjarmynd Akureyrar í heila öld. Húsið var byggt sem sláturhús árið 1907 en auk þess var þar meðal annars rekið mjólkurbú, bögglageymsla, verslun o.fl. Líkt og með önnur hús í Gilinu var það byggt upp í kringum starfssemi KEA og hefur alla tíð verið í eigu félagsins, að því er segir í tilkynningu.
Við endurbætur á húsinu verður horft til þess að útlitið verði sem næst því upprunalega, en í heildina verður gólfflötur hússins um 462 fermetrar.
„Eigendur Friðriks V. hafa staðið framarlega í kynningu á norðlensku hráefni og norðlenskri matargerð og það er því ánægjulegt að þeir taki þátt í þessu verkefni með okkur” segir Halldór Jóhannsson framkvæmdastjóri KEA, í fréttatilkynningu.
Hann bendir jafnframt á að í Gilinu hafi KEA byggt upp flestar ef ekki allar grunneiningar sínar í matvinnslu og umhverfið allt sé því órjúfanlegur hluti af sögu KEA og norðlenskrar matvinnslu.
Eigendur Friðriks V., Friðrik V. Karlsson og Arnrún Magnúsdóttir sem hafa rekið staðinn í 6 ár, stefna á að opna í nýjum húsakynnum í sumar. Friðrik segir að hugmyndin sé að starfsemin verði fjölbreyttari en verið hefur, en að sérstaðan verði áfram sú sama þ.e. áhersla á hráefni af svæðinu. Auk þess að efla starfsemi veitingastaðarins er hugmyndin að opna sælkeraverslun í húsinu þar sem áherslur verða með svipuðum hætti, það er á norðlenskt hráefni s.s. ferskan fisk og fleira.