Blaðamannafélag Íslands segir að Þorgerður K. Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, hafi í engu tekist að útskýra hvers vegna hún kaus að hunsa tilnefningar Blaðamannafélags Íslands í sérfræðinganefnd norræna blaðamannaskólans í Árósum (NJC). Aukinheldur hefur hún ekki sýnt Blaðamannafélaginu þá virðingu að svara erindi þess frá því í síðustu viku þar sem krafist sé skýringa.
Í yfirlýsingu frá Blaðamannafélaginu segir, að ráðherra hafi hins vegar gert grein fyrir afstöðu sinni í Morgunblaðinu í dag. Þær eftiráskýringar staðfesti, að ekki stóð til að hafa samráð við Blaðamannafélag Íslands varðandi NJC. Ráðuneytið virðist ekki óska eftir frekari samstarfi við BÍ og neyðist stjórn BÍ til að haga störfum sínum í samræmi við það.
Blaðamannafélagið tilnefndi fyrir jól, að beiðni menntamálaráðuneytisins, þau Birgi Guðmundsson, lektor í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri, sem aðalmann í nefnd NJC og Svanborgu Sigmarsdóttur, blaðamann á Fréttablaðinu, sem varamann. Félagið, segir að hafi menntamálaráðherra haft athugasemdir við þær tilnefningar, m.a. á grundvelli hagsmunaárekstra, eins og hún orðaði það í Morgunblaðinu í dag, hefði henni verið í lófa lagið að koma þeim athugasemdum á framfæri við félagið en það gerði hún ekki. Þvert á móti hafi starfsmaður ráðherrans, Elfa Ýr Gylfadóttir, staðfest í símtali við Örnu Schram, formann BÍ, hinn 6. desember sl. að búið væri að samþykkja tilnefningu BÍ um aðalmann. BÍ hafi hins vegar komist að því fyrir tilviljun í síðustu viku, að ráðherra hefði ekki farið að tillögum BÍ. Þorgerður Katrín hafi svo bitið höfuðið af skömminni með því að tilnefna sinn eigin starfsmann, fyrrnefndu Elfu Ýr, sem varamann í nefndina.
„Menntamálaráðherra sagði í samtali við Morgunblaðið í dag að þar sem hugmyndir um breytingar á NJC fælu m.a. í sér að nám í blaðamennsku yrði fært til háskóladeilda í hverju landi, hefði henni þótt rétt að skipa ekki háskólamann, enda skapaði það hættu á hagsmunaárekstrum. Rétt þykir að upplýsa menntamálaráðherra að í sérfræðinganefnd NJC sitja nú þegar fulltrúar þeirra skólastofnana á Norðurlöndunum sem leitað verður til vegna endurmenntunar blaðamanna, samkvæmt þeim breytingum sem menntamálaráðherrar Norðurlanda létu gera á starfseminni.
Því má bæta við að það er í meira lagi undarlegt að sjá haft eftir menntamálaráðherra að það bjóði hættunni heim að tilnefna einstakling úr háskólasamfélaginu í sérfræðinganefnd norræns blaðamannaskóla.
Þess má að lokum geta að umræddur einstaklingur, Birgir Guðmundsson, lektor í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri, hefur víðtæka reynslu úr fjölmiðlum sem og mikla reynslu af útgáfu og norrænu samstarfi, auk þess sem hann starfar um þessar mundir að ritstjórn og útgáfu fyrir Blaðamannafélag Íslands," segir í yfirlýsingu BÍ.