Í drögum að vegaáætlun sem nú er til umræðu í þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna er nú gert ráð fyrir tvöföldum Vesturlandsvegar frá Kjalarnesi til Borgarness. Þetta kemur fram á fréttavefnum Skessuhorn.
Samkvæmt heimildum Skessuhorns var í fyrstu drögum áætlunarinnar gert ráð fyrir svokölluðum 2+1 vegi á þessari leið en í gær barst þingmönnum ný útgáfa áætlunarinnar þar sem gert er ráð fyrir tvöföldun vegarins.
Samkvæmt áætluninni er gert ráð fyrir að kostnaður við verkið í heild verði 6 milljarðar króna sem skiptist þannig að á árunum 2007-2010 verði varið 2.500 milljónum króna og á árunum 2011-2014 verði varið 3.500 milljónum króna. Á vef Skessuhorns kemur fram að ekki liggur fyrir með hvaða hætti framkvæmdirnar verða fjármagnaðar en nefnt að það verði með sérstökum hætti.