Blönduós Það gerist ekki á hverjum degi að kind sé stolið frá sauðaþjófi og það um hábjartan dag. En síðasti dagur janúarmánaðar varð fyrir valinu hjá þeim sem hurfu á braut með gerðarlegan uppstoppaðan hrútshaus af Hótel Blönduósi en þar er meðal annars rekinn veitingastaðurinn Sauðaþjófurinn.
Holgeir Clausen hótelstjóri á Hótel Blönduósi sagði að hrútshausnum sem var á vegg við innganginn að veitingasalnum hefði verið stolið um miðjan dag og að þrír menn hefðu þá verið við vinnu inni á hótelinu og einskis orðið varir. Holgeir segir það merkilegt að engu öðru hafi verið stolið, því sá sem fjarlægði hrútsa þurfti að ganga fram hjá afgreiðslu hótelsins og þar hefðu verið fartölvur og annað sem er mun verðmætara en höfuðið af hrútnum.
Holgeir var ekki búinn að kæra haushvarfið til lögreglu þegar fréttaritari ræddi við hann í vikunni og var á báðum áttum um hvort hann ætti að gera það því líkast til væri langt síðan Blönduóslögreglan hefði fengist við sauðaþjófnað og það hjá Sauðaþjófnum sjálfum.