Refsingar eru að þyngjast án lagabreytinga

Hæstiréttur Íslands
Hæstiréttur Íslands mbl.is/Brynjar Gauti
eftir Rúnar Pálmason

runarp@mbl.is

DÓMAR Hæstaréttar yfir kynferðisbrotamönnum hafa þyngst á undanförnum árum. Það er þó langur vegur frá því að refsirammi vegna kynferðisbrota sé fullnýttur en það á við um fleiri afbrot þar sem ofbeldi er beitt, s.s. alvarlegar líkamsárásir.

Þær Ragnheiður Harðardóttir vararíkissaksóknari og Sigríður J. Friðjónsdóttir, saksóknari hjá ríkissaksóknara, hafa einna mesta reynslu hér á landi af því að sækja kynferðisbrotamenn til saka. Þær segja augljós merki um að refsingar Hæstaréttar í kynferðisbrotamálum hafi þyngst á undanförnum 3–4 árum, bæði hvað varðar brot gegn fullorðnum og börnum. Refsingarnar séu nokkuð í takt við það sem gerist á Norðurlöndunum. Ragnheiður nefnir sem dæmi að refsing fyrir nauðgun sé nú að meðaltali um tvö ár en hafi fyrir um áratug verið um eitt ár. Eins hafi dómar í sifjaspellsmálum þyngst og bendir á að fyrir skömmu hafi maður verið dæmdur í 5½ árs fangelsi fyrir slíkt brot.

Þessi þróun hefur átt sér stað án þess að breyting hafi orðið á lögum sem hafa áhrif á þyngd refsinga, breytingin felst eingöngu í dómaframkvæmdinni.

Miðað við þetta hljóta að vakna spurningar um hvort dómur Hæstaréttar frá því á fimmtudag, þar sem refsing yfir manni sem hafði brotið gegn fimm stúlkum var milduð úr tveimur árum í 18 mánuði, sé á skjön við þróun undanfarinna ára. Í dómnum er ekki vísað til einstakra dóma en líklegt má telja að Hæstiréttur hafi m.a. haft dóm frá 20. nóvember 2003 til hliðsjónar en þá dæmdi rétturinn mann til 18 mánaða fangelsis fyrir brot gegn sömu lagagreinum. Í því tilviki voru fórnarlömb hins seka reyndar þrjár stúlkur en ekki fimm líkt og í málinu sem dæmt var í á fimmtudag auk þess sem þær voru nokkuð eldri. Því hefði allt eins mátt búast við þyngri dómi á fimmtudag – eins og meirihluti í fjölskipuðum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur taldi raunar við hæfi.

Hvað álit almennings varðar er nokkuð víst að meirihlutinn hefði kosið að dómurinn væri enn þyngri. Nægir í því samhengi að benda á kannanir sem Helgi Gunnlaugsson, prófessor við Háskóla Íslands, gerði 2002 og 2005 sem leiddu í ljós að 75% Íslendinga telja að herða þurfi refsingar. Þegar þessir einstaklingar voru spurðir við hvaða brotum nefndu 66% kynferðisbrot en fæstir aðrir tiltóku sérstakan brotaflokk. Helgi segir að hvað sem sjónarmiðum um þyngd refsinga líði sé ljóst að dómarar þurfi að útskýra betur fyrir almenningi hvers vegna dómar í kynferðisbrotamálum séu með þessum hætti. | 4 og 11

Taka lögin í sínar hendur

BORIÐ hefur á því að foreldrar taki lögin í sínar hendur og beiti tálbeituaðferð til að komast í tengsl við kynferðisafbrotamenn, að sögn verkefnisstjóra hjá SAFT sem segist m.a. hafa fengið símtöl frá fólki sem hyggur á slíkar aðgerðir. Hann hvetur fremur til að foreldrar kenni börnum sínum að nota Netið.

"Við höfum bæði fengið símtöl frá mæðrum sem hafa skráð sig inn á einkamál.is með þessum hætti og einnig öðrum sem spyrja hvort þeir eigi að taka málin í sínar hendur," segir Guðberg Jónsson, verkefnisstjóri hjá SAFT – Samfélagi, fjölskyldu og tækni. Hann segist þó ekki vita til þess að aðgerðir foreldranna hafi borið árangur, þ.e. að gögnum hafi verið skilað til lögreglu.

"Við höfum beðið þessa aðila að leiða hugann að því hvort þeir séu jafnvel að brjóta lög og hvetjum fólk til að nálgast málið frá annarri hlið, þ.e. að kenna börnum sínum að nota Netið.

Hörður Jóhannesson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segist ekki hafa heyrt af slíkum málum. Hann segir lögregluna almennt mæla gegn því að fólk taki lögin í sínar hendur. "Lögreglan er alltaf tilbúin að taka við upplýsingum um brotastarfsemi af öllu tagi en jafnvel þó að fólki gangi gott til er þetta fremur varhugaverð leið."

Í hnotskurn
» Fangelsisrefsing fyrir nauðgun er nú að meðaltali um tvö ár en var eitt ár fyrir um áratug.
» Samkvæmt könnunum Helga Gunnlaugssonar prófessors á árunum 2002 og 2005 telja 75% Íslendinga að herða þurfi refsingar og 66% aðspurðra nefna kynferðisbrot en fæstir aðrir tiltaka sérstakan brotaflokk.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka