Segja að sér hafi verið rænt af skólabræðrum

Hópur unglingsstúlkna segir skólabræður sína hafa rænt sér á aðfaranótt föstudags. Öll ungmennin stunda nám í framhaldsskólanum á Laugum. Lögreglan segir málið litið alvarlegum augum enda virðast stúlkurnar hafa verið beittar valdi. Þá má búast við kæru vegna kynferðisbrots. Greint var frá þessu í fréttum Stöðvar 2.

Málið virðist hafa byrjað sem hrekkur milli tveggja fylkinga í skólanum, annars vegar stúlkna og hins vegar drengja. Stúlkurnar komu þannig fyrir þorskhausum í herbergjum piltanna en þeir svöruðu með öfgafullum hætti þannig að allt fór úr böndunum.

Krakkarnir sem um ræðir eru frá 15 ára aldri og upp í tvítugt og eru öll nemendur Framhaldsskólans á Laugum. Eftir að hafa rænt þeim af heimavistinni fóru drengirnir með stúlkurnar í hús skammt frá Laugaskóla og leikur grunur á að þar hafi verið káfað á þeim eða blygðunarsemi þeirra særð með einhverjum hætti, samkvæmt fréttum Stöðvar 2.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert