Hún segir að ástæðan fyrir slöku gengi í skoðanakönnunum undanfarið sé ekki síst sú að flokkurinn hafi "ekki sýnt okkar breiðu liðsheild flottra einstaklinga sem barist getur fyrir brýnustu hagsmunamálum almennings á þingi". Hún telur það ekki hafa verið farsælt að leggja af talsmannskerfi þingflokksins. "Við erum með sterka sveit og eigum að tefla henni allri fram. Þótt við séum með góðan foringja skiptir liðsheildin öllu máli." Guðrún náði ekki þeim árangri í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík sem hún sóttist eftir og hefur ákveðið að kveðja stjórnmálin í vor. Í samtali við Morgunblaðið í dag gerir hún m.a. upp pólitískan feril sinn.
Guðrún gagnrýnir framkomu formanns Vinstri grænna í garð Ingibjargar Sólrúnar í áramótaþætti Stöðvar 2: "Mér fannst framkoma Steingríms bera vott um kvenfyrirlitningu, að hann leit ekki á sessunaut sinn sem jafningja."
Um nýlega gagnrýni Jóns Baldvins Hannibalssonar á Samfylkinguna segir hún: "Þetta með Jón Baldvin er spurning um það hvort hann hafi næg verkefni eftir að hann hætti sem sendiherra, sem speglast nú í ákefð hans um landsmálin. En hann sem gömul ljósmóðir Samfylkingarinnar ætti að passa sig á því að stökkva ekki fyrir borð í miðjum draumnum og láta ákafann verða sér að falli."
Sjá ítarlegt viðtal við Guðrúnu í Morgunblaðinu í dag.