Starfsemi DV flytur í nýtt húsnæði á vegum blaðsins að Brautarholti 26 í Reykjavík á morgun. Fram kemur í tilkynningu, að þar með verði fullur aðskilnaður milli rekstrar fjölmiðlasamsteypunnar 365 og DV sem nú sé gefið út af Dagblaðinu-Vísi útgáfufélagi ehf.
Skrifstofur ritstjórnar og almennrar afgreiðslu verða opnar frá kl. 9-17 alla virka daga vikunnar en unnt verður að ná sambandi við dreifingu og ritstjórn utan almenns afgreiðslutíma í nýju aðalnúmeri blaðsins, 512-7000.
Um næstu helgi býður nýtt útgáfufélag DV upp á gönguferð um söguslóðir DV undir leiðsögn Jónasar Kristjánssonar, fyrrverandi ritstjóra DV. Gangan hefst í Síðumúla 12 laugardaginn 10. febrúar kl. 11 og lýkur um kl. 12 í Brautarholti. Gengið verður frá Síðumúla að Skaftahlíð, þaðan í Þverholt og lýkur göngunni svo í Brautarholti 26, nýjum höfuðstöðvum DV þar sem boðið verður upp á morgunverðarhlaðborð.