Fjórir fluttir á sjúkrahús eftir árekstur á Miklubraut

Frá slysstað í kvöld
Frá slysstað í kvöld mbl.is/Ómar

Fjórir voru fluttir á sjúkrahús eftir að tveir bílar lentu saman á Miklubraut, skammt austan við Réttarholtsveg á áttunda tímanum í kvöld. Annar bíllinn valt við áreksturinn og er gjörónýtur en hinn bíllinn, lítil sendibifreið, skemmdist mun minna. Ökumaður og farþegi í þeim bíl voru færðir á sjúkrahús og tveir úr hinum bílnum.

Engin fjórmenninganna voru alvarlega slasaðir, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Svo virðist sem ökumaður fólksbíls sem ók austur Miklubraut hafi misst stjórn á bílnum er hann skipti um akrein með þeim afleiðingum að bifreiðin lenti upp umferðareyju og kastaðist bifreiðin fyrir lítinn sendibíl sem var á leið vestur Miklubraut. Endaði fólksbílinn á hvolfi við áreksturinn, að sögn lögreglu.

Miklar umferðartafir mynduðust á Miklubraut, bæði á austur og vesturleið vegna slyssins og beindi lögreglan þeim tilmælum til ökumanna að nota Sæbraut eða Bústaðaveg til þess að minnka álag á Miklubrautinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert