Alls fengu 43 aðilar styrk úr Styrktarsjóði Baugs Group í dag, samtals 56,5 milljónir króna. Þetta er í þriðja sinn sem úthlutun fór fram úr sjóðnum sem stjórn Baugs Group stofnaði þann 10. júní 2005 með 300 milljón króna stofnframlagi.
Hæstu styrkina að þessu sinni hlutu Gunnar Þórðarsson til útgáfu geisladisks með Brynjólfsmessu að upphæð 2,6 milljónir, Gríman – Íslensku Leiklistarverðlaunin, styrk til næstu tveggja ára að upphæð 5 milljónir, Helgi Kristófersson að upphæð 2,4 milljónir til að laga vinnuaðstöðu fatlaðra í Múlalundi og Action on Addiction að upphæð 7 milljónir til rannsókna á vímuefna og áfengisforvörnum og meðferðarúrræðum í Bretlandi.
Þá hlutu Rithöfundasamband Íslands, Líknar- og vinafélagið Bergmál, Hjálpræðisherinn á Íslandi, Mannréttindaskrifstofa Íslands, SigurRós, Byggðasafn Vestfjarða og Lauf - Landssamband áhugafólks um flogaveiki, veglega styrki.
Styrktarsjóði Baugs Group er ætlað það hlutverk að styðja margvísleg líknar- og velferðarmál auk menningar- og listalífs. Framlög úr sjóðnum eru veitt í júní og í desember ár hvert og er auglýst eftir umsóknum nokkru áður en styrkúthlutun fer fram. Formaður stjórnar sjóðsins er Jóhannes Jónsson en auk hans sitja Hreinn Loftsson og Ingibjörg S. Pálmadóttir í stjórn sjóðsins.