Lánaði 15 ára vinkonu sinni bílinn

Átján ára piltur á 10 þúsund króna sekt yfir höfði sér en hann lánaði vinkonu bílinn sinn um helgina. Vinkonan er aðeins 15 ára og hefur því aldrei öðlast ökuréttindi en akstur hennar var stöðvaður á Sæbraut aðfaranótt sunnudags.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir, að pilturinn hafi viðurkennt að hafa lánað stúlkunni bílinn en með því gerðist hann sekur um lögbrot, þ.e. hann lét stjórn ökutækis í hendur manni sem hefur ekki til þess réttindi. Stúlkan má búast við jafn hárri sekt fyrir að aka bíl án þess að hafa öðlast ökuréttindi.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði sjö aðra ökumenn um helgina sem ýmist höfðu verið sviptir ökuleyfi eða aldrei öðlast ökuréttindi. Þá voru fjórtán ökumenn, þrettán karlmenn og ein kona, teknir fyrir ölvunarakstur. Níu voru stöðvaðir í Reykjavík, þrír í Hafnarfirði, einn í Kópavogi og einn í Garðabæ. Tæplega helmingur þeirra er í kringum tvítugt.

Áttatíu og sex umferðaróhöpp voru tilkynnt um helgina en tuttugu og einn ökumaður var tekinn fyrir hraðakstur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert