Langar umræður um fundarstjórn forseta á Alþingi spunnust í dag eftir að Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lagði fram fyrirspurn til Geirs H. Haarde, forsætisráðherra í fyrirspurnartíma í dag. Þingmenn stjórnarandstöðunnar sögðu að orðaskipti þeirra Sigurðar og Geirs hefði verið vel undirbúið og leikstýrt leikrit og kvörtuðu yfir því að hafa ekki komið sínum fyrirspurnum að.
Sigurður Kári vakti í fyrirspurnatímanum athygli á skýrslu, sem Hagstofan birti sl. föstudag, en sú skýrsla hefði leitt í ljós, að tekjuskipting á Íslandi væri mun jafnari en í öðrum Evrópulöndum. Sagði Sigurður Kári, að niðurstaðan byggði á samræmdri aðferðafræði Evrópusambandsins og slægi fullkomlega rökin úr höndum þeirra, sem vildu ráðast á ríkisstjórnina fyrir að auka á ójöfnuð í þjóðfélaginu.
Geir H. Haarde tók undir með Sigurði og sagði niðurstöðu rannsóknarinnar sýna, að þeir sem héldu því fram að misskipting tekna hér væri mikil væru að leiða fólk á villigötur.
Í umræðum um fundarstjórn forseta í kjölfarið sagði Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, m.a. að leikrit á borð við það, sem sett hefði verið upp milli Sigurðar Kára og forsætisráðherra ættu ekki heima í fyrirspurnartímum en svörin hefðu verið svo vandlega undirbúin, að fremstu leikstjórar hefðu verið stoltir af. Þessu mótmæltu Sigurður Kári og Arnbjörg Sveinsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks.