Leikrit eða ekki leikrit

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Ásdís

Langar umræður um fundarstjórn forseta á Alþingi spunnust í dag eftir að Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lagði fram fyrirspurn til Geirs H. Haarde, forsætisráðherra í fyrirspurnartíma í dag. Þingmenn stjórnarandstöðunnar sögðu að orðaskipti þeirra Sigurðar og Geirs hefði verið vel undirbúið og leikstýrt leikrit og kvörtuðu yfir því að hafa ekki komið sínum fyrirspurnum að.

Sigurður Kári vakti í fyrirspurnatímanum athygli á skýrslu, sem Hagstofan birti sl. föstudag, en sú skýrsla hefði leitt í ljós, að tekjuskipting á Íslandi væri mun jafnari en í öðrum Evrópulöndum. Sagði Sigurður Kári, að niðurstaðan byggði á samræmdri aðferðafræði Evrópusambandsins og slægi fullkomlega rökin úr höndum þeirra, sem vildu ráðast á ríkisstjórnina fyrir að auka á ójöfnuð í þjóðfélaginu.

Geir H. Haarde tók undir með Sigurði og sagði niðurstöðu rannsóknarinnar sýna, að þeir sem héldu því fram að misskipting tekna hér væri mikil væru að leiða fólk á villigötur.

Í umræðum um fundarstjórn forseta í kjölfarið sagði Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, m.a. að leikrit á borð við það, sem sett hefði verið upp milli Sigurðar Kára og forsætisráðherra ættu ekki heima í fyrirspurnartímum en svörin hefðu verið svo vandlega undirbúin, að fremstu leikstjórar hefðu verið stoltir af. Þessu mótmæltu Sigurður Kári og Arnbjörg Sveinsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert