Róbjörg og Marit færð á mannanafnaskrá

Kvenmannsnöfnin Eufemía, Róbjörg, Líba og Marit hafa verið samþykkt af mannanafnanefnd og verða færð á mannanafnaskrá. Þá taldi nefndin að kvenmannsnafnið Siv hefði ekki öðlast hefð í íslensku máli enda væri stafsetning þess með v-i ekki í samræmi við íslenska réttritun. Erindi vegna kvenmannsnafnanna Jeanne og Íssól voru tekin fyrir en afgreiðslu þeirra frestað.

Til að hægt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það í þjóðskrá gera mannanafnalög ráð fyrir að fimm skilyrði séu uppfyllt. Í fyrsta lagi skal eiginnafn geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli og þá skal nafnið ekki brjóta í bága við íslenskt málkerfi. Einnig skal það ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Jafnframt er eitt skilyrðanna að stúlku skuli gefið kvenmannsnafn og dreng karlmannsnafn og þá má eiginnafn ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

Sif gamalt norrænt nafn

Í úrskurði sínum gerði nefndin sérstaklega grein fyrir því hvers vegna Siv með v-i teljist ekki samrýmast íslenskum rithætti. Í úrskurðinum segir að nafnið Sif sé gamalt norrænt nafn og þekkt um öll Norðurlönd en í norsku sé það ritað Siv. Bókstafirnir f og v standi fyrir tannvaramælt önghljóð í íslensku og norsku en venjur um ritun þessara stafa í innstöðu og bakstöðu eru hins vegar mjög ólíkar í málunum tveimur. Í íslensku er almennt skrifað f í innstöðu og bakstöðu en notkun bókstafsins v er takmörkuð við ákveðin orð, t.d. sérnafnið Svavar. Þá bendir mannanafnanefnd á að í norsku sé þessu þveröfugt farið, þar er bókstafurinn v almennt notaður í innstöðu og bakstöðu. Telur nefndin að þegar jafn almennar reglur um ritun orða séu brotnar fái orð erlendan svip og geti ekki talist íslensk.

Um nafnið Eufemía sagði nefndin að bæði Efemía og Evfemía væru nöfn sem finna mætti á mannanafnaskrá og jafnframt bæru tvær konur nafnið Eufemía sem síðara nafn. Á grundvelli þess og þar sem nafnið telst einnig uppfylla önnur skilyrði laganna var rithátturinn samþykktur og verður hann færður í mannanafnaskrá. Nöfnin Líba og Róbjörg voru jafnframt samþykkt með þeim rökstuðningi að öll skilyrði laganna væru uppfyllt.

Beiðni vegna kvenmannsnafnsins Maritar var samþykkt og var sérstaklega látið reyna á hvort nafnið teldist uppfylla að hafa áunnið sér hefð í íslensku máli. Bera sjö íslenskar konur nafnið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert