Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna hefur sent frá sér ályktun í tilefni af nýgerðum samningi milli ríkisstjórnarinnar og Bændasamtaka Íslands um starfsskilyrði sauðfjárræktar. Í ályktuninni lýsir stjórn SUS m.a. furðu yfir samningnum segir hann bera vott um forræðishyggju og að niðurgreiðslur af þessu tagi gangi þvert á grundvallargildi Sjálfstæðisflokksins.
Nýr sauðfjársamningur var undirritaður í lok janúar sl.
Ályktunin hljóðar svo:
„Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna lýsir furðu sinni með svokallaðan „samning" milli ríkisstjórnarinnar og Bændasamtaka Íslands um styrki til sauðfjárræktar. Sú forræðishyggja sem fram kemur í þessari gjörð ríkisvaldsins er með öllu óþolandi. Stórfelldar niðurgreiðslur á tiltekinni matvöru í krafti skattheimtu, framleiðsluhöft og verðstýring gengur þvert á flest þau grundvallargildi sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir.
Það er mikill bjarnargreiði við íslenska sauðfjárrækt að aftengja greinina eðlilegum lögmálum frjáls markaðar. Tímabundnar stuðningsaðgerðir vegna niðurfellingar á öllum verndartollum hefði hugsanlega mátt réttlæta, en einhliða gjafagerningur af þessu tagi á kostnað skattgreiðenda er fullkomlega fráleitur.
SUS telur jafnframt mjög gagnrýnisvert að með samningi þessum er ríkisvaldið að hafa bein áhrif á framleiðslu og verðmyndun vörunnar með svokallaðri útflutningsskyldu. Með þessu er ríkið að taka eina grein framyfir aðrar í landbúnaði og viðhalda miðstýrðri verðmyndunarstefnu. Útflutningaskyldan felur í sér að framleiðendum er beinlínis skylt að flytja afurðir sínar út þegar framboð verður meira en eftirspurn á innlendum á markaði beinlínis í þeim tilgangi að halda uppi háu verði á innanlandsmarkaði. Er ljóst að þetta samræmist alls ekki grundvallarstefnu Sjálfstæðisflokksins um frjálsan markaðsbúskap.
Að mati SUS er hlálegt að halda því fram samningur þessi sé gerður með það að markmiði örva markaðsvitund bænda og afurðastöðva og halda jafnvægi milli framleiðslu og eftirspurnar, eins og kemur fram í fyrstu grein hans. Hljóti þessi „samningur" staðfestingu Alþingis er ljóst að sauðfjárrækt á Íslandi verður áfram föst í hlekkjum hafta og miðstýringar. Íslenskir bændur eru fullkomlega færir um spreyta sig á frjálsum markaði og eiga skilið að fá tækifæri til þess."