Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra, sagði á Alþingi í dag, að þegar væri hafinn undirbúningur að því að rannsaka hvernig staðið var að starfsemi drengjaheimilisins í Breiðavík á ofanverðri síðustu öld. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, tók málið upp í byrjun þingfundar og sagði að samfélagið ætti því fólki, sem þarna var vistað, skuld að gjalda.
Ingibjörg Sólrún sagði að Kastljósþáttur Sjónvarpsins í gærkvöldi hefði vakið fólk til vitundar um það, hvernig farið var með ung börn sem send voru á opinbert upptökuheimili nánast í útlegð og ofurseld samfélagi ofbeldis og níðingsverka. Sagði hún þetta minna á frásagnir um það hvernig farið var með heyrnarlaus börn, sem voru í Heyrnleysingjaskólanum.
Hvatti Ingibjörg Sólrún til þess, að stjórnvöld vinni úttekt á málinu, safni gögnum og taki viðtöl við fólk, sem þarna var vistað. Sagði hún að Íslendingar verði að takast á við þennan fortíðardraug, sem þarna var vakinn upp.
Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra, sagði að samhljómur væri um að mikilvægt væri að rannsaka upplýsingar um starfsemina í Breiðavík og draga lærdóm af málinu. Hins vegar yrði að fara mjög ýtarlega yfir það áður en næstu skref verða tekin og m.a. kynna sér hvernig stjórnvöld í öðrum löndum hefðu tekið á svipuðum málum.
Magnús sagði að upptökuheimilið hefði verið rekið frá árinu 1952 og fram á áttunda áratug síðustu aldar. Vitneskja um aðbúnað þar hefði legið fyrir lengi. Sagðist Magnús geta fullyrt, að stjórnvöld muni vinna hratt og örugglega að því að þetta mál verði upplýst.
Nokkrir þingmenn vísuðu til þess að í Noregi og Svíþjóð hefði fólk, sem sætti svipaðri meðferð og drengirnir í Breiðavík, fengið bætur frá ríkinu. Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG, hvatti m.a. til þess að þolendunum verði greiddar bætur þótt seint væri og ljóst að aldrei yrði bætt með fjármunum ef fólk hefði verið rænt lífshamingju sinni. Sagði Steingrímur, að samfélagið hefði brugðist þessum einstaklingum.