Hægra lunga Björns Bjarnasonar féll saman

Björn Bjarnason
Björn Bjarnason

Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, greinir frá því á vefsíðu sinni að hann hafi þurft að leita sér læknisaðstoðar í gær. Hann segist hafa átt erfitt með andardrátt og hafi í framhaldinu haft samband við lækni. Skömmu síðar hafi hann verið kominn á bráðamóttöku Landsspítala - háskólasjúkrahúss við Hringbraut þar sem í ljós kom að hægra lunga hans hafði fallið saman.

Björn greinir frá því að þar hafi brjóstholdskera verið komið fyrir í brjóstholinu, sem er slanga sem komið er fyrir í bilinu milli lungans og brjóstveggjarins. „Sog er sett á slönguna og myndast þá neikvæður þrýstingur inni í brjóstholinu sem gerir það að verkum að lungað þenst út aftur,“ skrifar Björn.

Björn segist hafa verið staðdeyfður á meðan þessu stóð. Þetta hafi aðeins tekið nokkrar mínútur og hafi ekki verið mjög sársaukafullt. „Nokkurn tíma tók lungað að þenjast út og var sárt, þegar það lagist aftur að brjóstveggnum. Ég þarf að vera með kerann í mér á meðan gatið á lunganu er að gróa,“ skrifar Björn.

„Þessi sjúkdómur nefnist loftbrjóst og nokkrar ástæður eru sagðar fyrir honum og er ástæðan gjarnan sú, að litlar blöðrur hafa myndast á yfirborði lungans. þær springa og gat kemur á lungað. Þá lekur loft úr lunganu inn í brjósthol og hluti lungans eða allt lungað fellur saman, hjá mér féll allt lungað saman,“ kemur fram á vef Björns Bjarnasonar.

Vefsíða Björns Bjarnasonar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert