Neytendasamtökin fagna því að Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra hafi í hyggju að setja reglugerð um merkingu erfðabreyttra matvæla og segjast lengi hafa krafist þessa. NS benda einnig á að Ísland sé eina landið í Evrópska efnahagssvæðinu sem ekki sé skylt að merkja slík matvæli sérstaklega.
„Neytendasamtökin hvetja jafnframt til að skrefið verði tekið að fullu sem allra fyrst og að íslensk löggjöf á þessu sviði verði samræmd að öllu leiti að Evrópureglum. Í dag er stór hluti innflutts kjarnfóðurs erfðabreytt án þess að vera merkt sem slíkt. Þessu þarf að breyta með merkingum. Minnt er á að íslenskar landbúnaðarvörur eru markaðssettar sem umhverfisvænar vörur og sem framleiddar eru í sátt við umhverfið. Það er ljóst að ef það myndi spyrjast út að erfðabreytt kjarnfóður sé notað í íslenskum landbúnaði er hætt við að sú ímynd myndi bíða verulega hnekki,“ segir á vefsíðu NS.