Samfylkingin nýtur nú minna fylgis en Vinstri grænir, samkvæmt könnun Blaðsins á fylgi við flokkana fyrir þingkosningar. 19,1% sögðust ætla að kjósa Samfylkinguna en 22,9% Vinstri græna. Samfylkingin hefur ekki áður verið með minna fylgi en Vinstri grænir, en hún fékk 31% atkvæða í seinustu kosningum, árið 2003. 39% aðspurðra höfðu ekki gert upp hug sinn.
Samkvæmt könnun blaðsins héldi ríkisstjórnin velli, væri gengið til kosninga nú, þar sem Sjálfstæðisflokkur er með 45,4% fylgi og Framsóknarflokkurinn 9,4%. Frjálslyndir tapa fylgi, eru nú með 3,1%.