Austurrískur barnaklámhringur teygir anga sína til Íslands

Kynferðisbrotadeild lögreglunnar í Reykjavík rannsakar nú mál þriggja Íslendinga sem taldir eru tengjast barnaklámhring sem lögregla í Austurríki hefur komið upp um.

Samkvæmt upplýsingum Björgvins Björgvinssonar aðstoðaryfirlögregluþjóns barst lögreglu ábending frá austurrískum lögregluyfirvöldum vegna málsins fyrir áramót og síðan bárust fleiri gögn nú um mánaðarmótin janúar, febrúar. Þá segir hann yfirheyrslur hafa farið fram í málinu hér á landi en að öðru leyti sé ekki hægt að greina frá gangi þess að svo stöddu.

Björgvin segir jafnframt að slík mál komi alltaf af og til til kasta íslenskra lögregluyfirvalda.

Yfirvöld í Austurríki greindu frá því í morgun að þau hefðu komið upp um barnaklámhring með rúmlega 2,360 meðlimum í 77 löndum sem m.a. hefðu borgað fyrir aðgang að myndböndum sem sýndu verstu gerð kynferðislegs ofbeldis gegn börnum.

Enginn hefur enn verið handtekinn vegna málsins en 23 hafa verið færðir til yfirheyrslu í Austurríki. Þá hefur lögregla þar deilt upplýsingunum lögregluyfirvöld í öðrum löndum í málinu.

Guenther Platter, innanríkisráðherra landsins, segir að myndböndin hafi verið birt á austurrískri netsíðu og að um stærsta barnaklámhringsmál sem komið hafi upp í landinu sé að ræða. Þá segir hann bandarísku alríkislögregluna vera að kanna mál 600 aðila sem tengist málinu og lögreglu í Þýskalandi vera að kanna mál 400 manna.

Yngsti áskrifandi síðunnar mun hafa verð 17 ára en sá elsti 69 ára. Þá segir Platter námsmenn, opinbera starfsmenn og ellilífeyrisþega hafa verið á meðal áskrifenda síðunnar.

Greint er frá því á fréttavef Jyllands-Posten að nítján Danir virðist tengjast málinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka