Eldur kom upp skömmu fyrir klukkan 17 í dag í kjallaranum á Hótel Höfn. Allt tiltækt slökkvilið er á staðnum og er talið að þegar hafi tekist að slökkva eldinn. Starfsfólk var að störfum á hótelinu og standa þar yfir framkvæmdir en engan sakaði. Ekki er vitað um eldsupptök en eldurinn er sagður hafa verið mestur við gufubað hótelsins. Mikinn reyk lagði um allt hótelið og er að sögn lögreglu líklegt að talsverðar reykskemmdir hafi orðið.