Er Ísland best í heimi?

Metþátttaka verður á árlegu Viðskiptaþingi Viðskiptaráðs Íslands, sem fram fer í dag undir yfirskriftinni: „Ísland, best í heimi?“ Hátt í 500 manns sitja þingið, og er hvert sæti skipað.

Meðal gesta eru lykilmenn í íslensku viðskiptalífi, ráðherra, þingmenn, fræðimenn, erlendir sendiherrar og embættismenn. Umfjöllunarefni þingsins er alþjóðlegt orðspor og ímynd Íslands.

Erindi flytja Geir H. Haarde forsætisráðherra, Simon Anholt, einn helsti sérfræðingur heims í ímynd þjóða, Erlendur Hjaltason, forstjóri Exista og formaður Viðskiptaráðs, og Halla Tómasdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.

Í ræðu sinni fjallar Anholt um niðurstöðu könnunar á ímynd Íslands í samanburði við önnur ríki, sem gerð var meðal hátt í 30 þúsund manna í 35 löndum en þar varð Ísland í 19. sæti meðal þeirra 38 landa sem rannsökuð voru. Þeir þættir sem eru skoðaðir eru útflutningur, stjórnhættir, menning og saga, fólkið, ferðamennska og innflutningur fólks og fjárfestingar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert