Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra, upplýsti á Alþingi í dag að hann hefði afnumið þá framkvæmd, að fyrri fæðingarorlofsgreiðslur séu lagðar til grundvallar þegar annað barn fæðist innan þriggja ára frá því foreldrar fengu greiðslur úr fæðingarorlofssjóði. Sagðist Magnús vona, að með þessari breytingu hefði hann stuðlað að auknum barneignum hér á landi.
Magnús var að svara fyrirspurn frá Jóhönnu Sigurðardóttur, alþingismanni, um það hvort hann hygðist beita sér fyrir breytingu á þeirri framkvæmd fæðingarorlofslaga, sem lúti að tekjuviðmiði sem lagt er til grundvallar fæðingarorlofsgreiðslum. Spurði Jóhanna sérstaklega um þá framkvæmd, að fyrri fæðingarorlofsgreiðslur væru lagðar til grundvallar í tekjuviðmiði í ljósi þess að umboðsmaður Alþingis teldi það ekki samræmast lögum.
Magnús sagðist þegar hafa undirritað breytingar á reglugerð um greiðslur úr fæðingarorlofssjóði og greiðslur fæðingarstyrks. Sagði hann að starfshópur hefði verið að fara yfir framkvæmd laganna í kjölfar niðurstöðu umboðsmanns og hann styddi þá breytingu, sem þegar hefði verið gerð. Þá færi hópurinn nú yfir önnur atriði málsins. Einnig muni úrskurðarnefnd fara yfir fimm mál, sem þangað hefur verið vísað vegna þessara ákvæða reglugarðar, og önnur tilvik, sem ekki hafa enn verið kærð til nefndarinnar.