Bæjarstjórar Hveragerðis, Ölfuss og Árborgar hafa fengið svar við erindi sem þeir sendu Vegagerðinni fyrir skömmu þar sem óskað var eftir skýringum á misvísandi tölum varðandi ætlaðan kostnað við tvöföldun vegarins á milli Selfoss og Reykjavíkur. Vegagerðin segir skýringuna felast í því, að nú liggi fyrir nákvæmari kostnaðartölur en áður, auk þess sem framkvæmdirnar hafi ekki verið að fullu samanburðarhæfar.
Samtök sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) fékk uppgefnar kostnaðartölur frá Vegagerðinni í júní 2005 og samkvæmt þeim átti kostnaður við tvöföldun vegarins að vera sjö til átta milljarðar króna. Í svari Vegagerðarinnar til sveitarstjóranna þriggja kemur hins vegar fram, að Vegagerðin telji kostnaðinn nú 13,5 milljarða króna.
Muninn skýrir Vegagerðin með því, að nú liggi fyrir mun nákvæmari tölur um tvöföldun Reykjanesbrautar, sem í báðum tilfellum var höfð til samanburðar og að í fyrra svari hafi einungis verið gert ráð fyrir tvöföldun frá Hringtorgi við Rauðavatn. Nú sé hinsvegar gert ráð fyrir tvöföldun frá Nesbraut og austur á Selfoss.