Bændur hvetja Bónus til að lækka innlendar búvörur

Bændasamtökin segja, að auglýsingar Bónus um síðustu helgi, sem kenndar séu við „Draumalandið”, séu ekki aðeins ávísun á stórlækkað verð á innfluttum landbúnaðarafurðum til neytenda. Miklu meiri athygli vekur, að þær virðast fyrirboði gerbreyttrar álagningarstefnu fyrirtækisins. Hvetja Bændasamtökin Bónus til að sýna styrk sinn og heimfæra þessa stefnu upp á íslenskar landbúnaðarvörur og stuðla þannig að verulegri lækkun þeirra nú þegar.

Í tilkynningu frá Bændasamtökunum segir, að í auglýsingunni séu neytendum boðnar danskar kjúklingabringur á 499 krónur kíló. Þar sé miðað við frjálsan innflutning, án allra gjalda. Meðalinnflutningsverð á bringum á síðasta ári hafi verið 418 kr. kg samkvæmt innflutningsskýrslum og án virðisaukaskatts sé verð á bringunum 439 kr. kg.

„Samkvæmt þessari auglýsingu er álagning Bónus 21 króna á hvert kíló af kjúklingabringum eða um 5%. Fyrir þá upphæð á eftir að skipa bringunum upp, aka vörunni til birgðastöðvar, dreifa á sölustaði, selja og taka tillit til vörurýrnunar. Að ekki sé svo minnst á kostnaðinn við að auglýsa vörurna!

Sambærilegar reikningskúnstir eru notaðar til þess að stilla upp freistandi verðdæmum fyrir lambalæri frá Nýja-Sjálandi og frosnar nautalundir. Í báðum tilvikum er álagning fyrirtækisins lítil sem engin.

Því verður ekki trúað að Bónus ætli að leggja minna á innfluttar búvörur en innlendar," segir í tilkynningu Bændasamtakanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert