DV verður prentað í prentsmiðju Morgunblaðsins í Hádegismóum frá og með fimmtudeginum 22. febrúar nk. en þá hefur blaðið göngu sína aftur sem dagblað. Gengið var frá samningum um þetta nýlega en Guðbrandur Magnússon, framleiðslustjóri Morgunblaðsins, segist fagna því að DV verði á ný prentað í prentsmiðju Morgunblaðsins.
DV hefur um nokkurra ára skeið verið prentað í Ísafoldarprentsmiðju, en var áður um árabil prentað hjá Morgunblaðinu. Prentsmiðja Morgunblaðsins mun nú framvegis prenta fjögur dagblöð, Morgunblaðið, Blaðið, DV og Viðskiptablaðið sem kemur út fimm sinnum í viku frá og með deginum í dag. Þá mun Morgunblaðið prenta vikufréttaritið Krónikuna, sem á að byrja að koma út um miðjan mánuðinn.
Dreifing DV verður einnig í höndum Morgunblaðsins, en blaðið verður selt í lausasölu á virkum dögum, og í áskrift og lausasölu um helgar.