Samþykkt var bókun á fundi stjórnar Lögmannafélags Íslands í gær í tilefni af forsíðuumfjöllun Morgunblaðsins um dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 329/2006.
„Stjórn Lögmannafélags Íslands harmar myndbirtingu Morgunblaðsins af fimm hæstaréttardómurum á forsíðu blaðsins þann 2. febrúar s.l. í tengslum við frétt um að dómurinn hefði mildað refsingu í sakamáli sem dómur gekk í deginum áður. Stjórn Lögmannafélagsins tekur sérstaklega fram að öflug og opin umræða um niðurstöður dómstóla sé afar mikilvæg í hverju réttarríki og hana beri að efla. Stjórnin telur hins vegar fráleitt að draga dómara réttarins persónulega fram í umræðuna með þeim hætti, sem gert var enda er það mikilvæg forsenda fyrir hlutleysi dómstóla að niðurstöður þeirra séu ekki tengdar við persónur dómendanna sjálfra."