Segir upplýsingum ekki lekið frá ríkislögreglustjóra

Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari efnahagsbrota hjá embætti ríkislögreglustjóra, segir líklegt að annar tveggja manna, sem tilheyrðu þeim hópi 9 einstaklinga tengdum Baugi Group, sem nefndir hafa verið í tengslum við meint skattalagabrot, hafi afhent fréttamönnum gögn um málið eða þeir komist yfir þau með öðrum hætti frá þeim.

Saksóknarinn sendi frá sér tilkynningu í kjölfar fullyrðinga Hreins Loftssonar, stjórnarformanns Baugs Group, um að ríkislögreglustjóri hafi enn á ný lekið upplýsingum til fjölmiðla í því skyni að koma höggi á fyrrverandi og núverandi starfsmenn Baugs. Segir Helgi Magnús, að fullyrðingar um að embætti ríkislögreglustjórans hafi lekið upplýsingum um rannsókn á umræddu máli hafi komið fram áður. Ríkissaksóknari hafi rannsakað slíkar ávirðingar og komist að þeirri niðurstöðu að enginn fótur væri fyrir slíkum áburði.

Tilkynningin er eftirfarandi:

    Hreinn Loftsson hrl., stjórnarformaður Baugs Group, sendi f.h. félagsins yfirlýsingu til fjölmiðla í dag. Í yfirlýsingu sinni fullyrðir Hreinn að Ríkislögreglustjórinn hafi enn á ný lekið upplýsingum til fjölmiðla í því skyni að koma höggi á fyrrverandi og núverandi starfsmenn félagsins og svo virðist sem tilgangurinn hafi verið sá að hafa áhrif á aðalmeðferð í eftirstöðvum Baugsmálsins sem hefst í Héraðsdómi Reykjavíkur í næstu viku.

    Að því tilefni vill Ríkislögreglustjórinn taka eftirfarandi fram.

    Umræða í fjölmiðlum síðustu daga er tilkomin vegna þess að fréttamenn fengu afhent afrit af bréfaskriftum milli embætta Ríkislögreglustjórans og Skattrannsóknarstjóra ríkisins. Fréttamennirnir fengu þessi gögn ekki afhent hjá embætti Ríkislögreglustjórans, sem hafði hafnað beiðni þeirra um slíkt. Líklegt er að annar tveggja manna sem tilheyrðu þeim hópi 9 einstaklinga sem nefndir hafa verið í umræðunni og höfðu fengið umrædd gögn afhent hjá Skattrannsóknarstjóra ríkisins, eins og þeir höfðu rétt á samkvæmt stjórnsýslulögum, hafi afhent fréttamönnum gögnin eða þeir komist yfir þau með öðrum hætti frá þeim. Vegna þeirra upplýsinga sem fram komu í nefndum bréfum og fjölmiðlaumræðu sem hófst mánudaginn 5. febrúar sl. sá embætti Ríkislögreglustjórans sig tilknúið að senda frá sér fréttatilkynningu sem send var út þriðjudaginn 6. febrúar sl.

    Í yfirlýsingu sinni fullyrðir Hreinn Loftsson að enn á ný hafi embætti Ríkislögreglustjórans lekið upplýsingum til fjölmiðla, án þess að það sé með nokkrum hætti rökstutt með hvaða hætti það á að hafa gerst eða hvaða upplýsingar það eru. Verður ekki séð að Hreinn sé að vísa til fréttatilkynningar embættisins enda verður hún vart flokkuð sem leki heldur bein upplýsingagjöf til almennings. Ríkislögreglustjórinn getur ekki tekið ábyrgð á umfjöllun fjölmiðla um einstök mál né stjórnað umfjöllun þeirra um gögn sem þeir hafa fengið í hendur.

    Ríkislögreglustjórinn hefur engan hag af, né vilja til, að koma höggi á nokkurn starfsmann Baugs Group hvorki fyrrverandi né núverandi. Í féttatilkynningu embættisins frá í gær var enginn slíkur nafngreindur. Upplýsingar um nöfn einstaklinga hafa fréttamenn tekið upp úr framangreindum gögnum sem þeir hafa undir höndum. Reyndar var áréttað í fréttatilkynningu embættisins í gær að ekki væri litið svo á að brot sjö þeirra níu sem getið er um án nafngreiningar gæfu tilefni til opinberrar refsimeðferðar, þótt ávirðingar kynnu að teljast sannar.

    Í yfirlýsingu sinni vísar Hreinn Loftsson til umfjöllunar í fréttum Ríkisútvarpsins og að fjárhæðir séu þar slitnar úr samhengi. Ríkislögreglustjórinn hefur ekki veitt fréttamönnum Ríkisútvarpsins neinar af þeim upplýsingum sem Hreinn vísar til í umræddri fréttaumfjöllun og ekki komu fram í fréttatilkynningunni frá í gær. Aðrar upplýsingar sem koma fram í frétt Ríkisútvarpsins, eru á ábyrgð þeirrar stofnunnar og eru ekki frá embætti Ríkislögreglustjórans komnar, þar á meðal að greiðslur hafi verið teknar ófrjálsri hendi úr sjóðum Baugs. Ríkislögreglustjórinn hefur í umfjöllun sinni eingöngu fjallað um meint brot manna, en á engan hátt haldið því fram að ekki kunni að vera að einhverjar þær ávirðingar sem rannsókn beinist að kunni að verða taldar tilhæfulausar að henni lokinni.

    Í yfirlýsingu sinni segir Hreinn Loftsson að svo virðist sem „tilgangur nýjasta lekans„ sé að hafa áhrif á aðalmeðferð í eftirstöðvum Baugsmálsins sem hefst í Héraðsdómi Reykjavíkur í næstu viku, án þess að rökstyðja þá fullyrðingu nokkuð frekar. Erfitt er að sjá hvaða áhrif þetta getur haft á aðalmeðferð í umræddu máli. Ríkislögreglustjórinn vill árétta að sú umræða sem farið hefur fram í fjölmiðlum og var tilefni yfirlýsingar Hreins hófst án þess að Ríkislögreglustjórinn gæti þar nokkru um ráðið, en upphaf hennar er rakið hér að framan.

    Rétt er að lokum að benda á að fullyrðingar um að embætti Ríkislögreglustjórans hafi lekið upplýsingum um rannsókn á umræddu máli hafa komið fram áður. Ríkissaksóknari hefur rannsakað slíkar ávirðingar og komist að þeirri niðurstöðu að enginn fótur væri fyrir slíkum áburði.

    Reykjavík 7. febrúar 2007
    Helgi Magnús Gunnarsson saksóknari efnahagsbrota.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert