Sex ára fangelsi fyrir fíkniefnasmygl

Hæstiréttur hefur dæmt 27ára gamlan karlmann, Tryggva Lárusson, í sex ára fangelsi fyrir að flytja 7,7 kíló af amfetamíni til landsins árið 2004 ásamt fjórum öðrum einstaklingum. Hæstiréttur taldi ekki sannað, að maðurinn hefði sjálfur keypt efnin í Hollandi en talið var sannað að hann hefði að öðru leyti staðið að kaupunum.

Aðrir þeir sem áttu aðild að málinu voru sakfelldir árið 2005 en þætti ákærða Tryggva var vísað aftur heim í hérað þar sem mótsagnir þóttu vera í héraðsdómi um hlut hans að kaupum á fíkniefnunum.

Héraðsdómur taldi m.a. sannað, að Tryggvi hefði í fylgd með óþekktum vitorðsmanni annast kaup á um 8 kílóum af amfetamíni af óþekktum seljendum í lok júní 2004 í Roosendaal í Hollandi. Hæstaréttur taldi hins vegar ekki, að ákæruvaldinu hafi tekist að færa nægar sönnur fyrir því að Tryggvi hafi sjálfur keypt efnin þótt hann hafi annars staðið að kaupunum eins og í ákæru greinir. Samt staðfesti Hæstiréttur dóm héraðsdóms varðandi refsingu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert