Slökkvistarf stendur enn yfir við gamla skátaheimilið í Breiðholti, en talsverður eldur var í húsinu og hefur hann enn ekki verið slökktur að fullu. Slökkviliðsmenn unnu við að rífa þakið af húsinu, en mikill eldur var á millilofti. Að sögn slökkviliðsins er ekki búist við að slökkvistörfum ljúki endanlega fyrr en um miðnætti og hugsanlega verði vakt við húsið í nótt.
Húsið mun vera mikið skemmt, en það var ekki í notkun og neglt fyrir glugga og því óljóst hve mikið tjónið er. Mun hafa staðið til að rífa húsið. Ekkert er vitað um eldsupptök að svo stöddu.
Allt slökkvilið sem var á vakt var kallað út vegna eldsins og aukalið hefur verið kallað út svo slökkvilið sé til taks ef kviknar annars staðar í.