Héraðsdómur Vestfjarða hefur sýknað karlmann af ákæru fyrir að láta flytja bát af geymslusvæði við Ísafjarðarhöfn og nota hann sem efnivið í áramótabrennu á Hauganesi við Skutulsfjörð árið 2003. Maðurinn var umsjónarmaður áramótabrennunnar og taldi sig hafa fengið leyfi til að setja bátinn á brennuna en vitni lýstu bátnum m.a. sem fúabraki.
Málið var kært til sýslumannsins á Ísafirði í apríl 2004 og kom þar fram að báturinn hefði verið notaður sem efniviður í áramótabrennu Ísfirðinga án vitundar og samþykkis eiganda bátsins.
Brennustjórinn sagðist hafa talið sig hafa leyfi hjá eiganda bátsins að setja bátinn á brennuna enda hefði báturinn á þessum tíma verið í algerri óreiðu á hafnarsvæðinu og ónýtur. Í ljós kom, að maðurinn, sem brennustjórinn hafði samband við, hafði selt sinn hlut í bátnum og kannaðist að auki ekki við að hafa veitt brennuleyfið.
Vitni voru leidd fyrir dóminn sem báru, að báturinn hefði verið með öllu ónýtur þegar hann var brenndur. Þá hafi eigendur hans lítið sem ekkert hugsað um hann í hartnær þrjú ár og báturinn meðal annars verið látinn liggja án eftirlits í Ísafjarðarhöfn svo mánuðum skipti.
Dómurinn taldi því ósannað að tilgangur brennustjórans hefði beinlínis verið sá að ónýta eða skemma bátinn eða svipta eiganda bátsins honum, eins og fullyrt væri í ákæru. Var maðurinn því sýknaður af ákæru fyrir eignaspjöll.