Hreyfing fyrir alla

Stafaganga æfð í upphafi heilsuátaks í dag.
Stafaganga æfð í upphafi heilsuátaks í dag. mbl.is/RAX

Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hefur stofnað til tilraunaverkefnisins Hreyfing fyrir alla sem er samstarfsverkefni heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, Lýðheilsustöðvar og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.

Vonir standa til að verkefnið geti náð til allt að 2/3 hluta landsmanna og hafa rúmlega 13 milljónir króna þegar verið tryggðar til að hleypa því af stokkunum.

Verkefnið er unnið í samvinnu við Reykjavíkurborg, Akureyrarbæ, Hafnarfjarðarbæ, Mosfellsbæ, Ungmennafélagið Breiðablik í samstarfi við Kópavogsbæ, Héraðssamband Vestfirðinga og Héraðssamband Bolungarvíkur í samstarfi við Ísafjarðarbæ, Bolungarvíkurkaupstað og Súðavíkurhrepp. Einnig heilsugæslu og íþróttafélög í viðkomandi sveitarfélögum. Þá munu stéttarfélögin VR og Efling veita verkefninu stuðning, sem og fleiri aðilar.

Að sögn ráðuneytisins er tilgangur verkefnisins, eins og nafnið gefur til kynna, að fjölga tilboðum á skipulagðri hreyfingu, einkum fyrir fullorðna og eldra fólk, í skipulögðu samstarfi við sveitarfélög, heilsugæslu og íþróttafélög. Verkefninu sé ætlað að höfða til ólíkra hópa og með mismunandi þarfir sem stunda ekki reglulega hreyfingu.

Athafnir voru látnar fylgja orðum í Laugardalnum í dag því áður en samstarfssamningurinn var undirritaður var fulltrúum þátttakenda í verkefninu sýnt hvernig á að bera sig að í stafagöngu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert