Félagsmálanefnd Alþingis fundaði um málefni Byrgisins í morgun og sagði Dagný Jónsdóttir varaformaður þingflokks Framsóknarflokksins að nú væri unnið að bókun þar sem mælst er til þess að sett verði á fót áfallateymi til að hjálpa fyrrverandi skjólstæðingum Byrgisins og leiðbeina þeim.
„Það er einhugur innan nefndarinnar, það þarf að bregðast hratt við og finna út úr því hvað er hægt að gera við þessa skjólstæðinga núna," sagði Dagný í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.
Dagný sagði að nefndin beindi þessu erindi til ríkisstjórnarinnar.