Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði í dag frá dómi máli ákæruvaldsins gegn þremur núverandi og fyrrverandi forstjóra olíufélaga ólöglegs samráðs félaganna, m.a. á þeirri forsendu að ekki væri hægt að sækja einstaklinga til saka fyrir þau brot, sem ákært var fyrir. Saksóknari lýsti því yfir að úrskurðurinn verði kærður til Hæstaréttar.
Segir m.a. í niðurstöðu Jónasar Jóhannssonar, héraðsdómara, að það sé álit dómsins að 10. gr. samkeppnislaga veiti ekki viðhlítandi lagastoð til að unnt sé að refsa einstaklingum fyrir þá háttsemi, sem þar er lýst, en ákærðu beri að njóta alls skynsamlegs vafa í því sambandi.
Ragnar Halldór Hall, lögmaður og verjandi Kristins Björnssonar, fyrrum forstjóra Skeljungs, sagði við mbl.is, að þessi niðurstaða væri í samræmi við það sem hann bjóst við. Hins vegar lægi fyrir, að úrskurðurinn yrði kært til Hæstaréttar þannig að þetta væri staðan í hálfleik.
Löskuð lögreglurannsókn
Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari, sem sótti málið fyrir hönd ríkissaksóknara, sagði að eftir stæði, að dómsólar væru ekki sáttir við framsetningu saksóknaraembættisins á efninu en ákveðinn vandi væri falinn í að lýsa þessu sakarefni og brotum manna. Sagði Helgi Magnús, að lögreglurannsóknin hefði verið löskuð og ekki hefði verið um að ræða venjulegan framgangsmáta þegar búið er að vinna að málinu „úti í bæ" hjá öðrum aðila, þ.e. Samkeppnisstofnun.
Hann sagði einnig, að það hefði verið fullkomlega ljóst að á framgangi málsins væru ákveðnir annmarkar. Reynt hefði á réttarstöðu og réttindi sakborninga því þeir höfðu enga slíka stöðu undir rannsókn samkeppnisyfirvalda.
Helgi Magnús sagði, að samkeppnislögin væru illa smíðuð. „Til hvers á það að leiða hjá ákæruvaldi og lögreglu þegar svona háttar til? Á að gefast upp og leggja málið niður eða láta reyna á það?" sagði hann.
Óljós verknaðarlýsing
Þeir Einar Benediktsson, forstjóri Olís, Kristinn Björnsson, fyrrverandi forstjóri Skeljungs og Geir Magnússon, fyrrverandi forstjóri Kers, voru ákærðir fyrir að hafa átt ólöglegt samráð sem forsvarsmenn fyrirtækjanna. Verjendur þeirra kröfðust þess að ákærunni yrði vísað frá á þeim forsendum að ákæran samrýmist ekki kröfum laga um meðferð opinberra mála. Einstaklingum yrði ekki gerð refsing fyrir þá háttsemi sem lýst væri í ákæru. Ákæran væri ekki reist á viðhlítandi rannsókn sakargifta. Við rannsókn málsins og útgáfu ákæru hafi verið brotið gegn reglum um réttarstöðu sakborninga. Útgáfa ákæru væri andstæð jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og refsikrafa í málinu væri andstæð banni við því að leggja oftar en einu sinni refsingu á aðila fyrir sömu háttsemi.
Dómarinn segist fallast á það með ákærðu að verknaðarlýsing ákæru sé í heild svo óljós, þegar komi að tilgreiningu á háttsemi ákærðu, að ekki sé unnt að verjast henni á fullnægjandi hátt.
Þá telur dómarinn að 10. gr. samkeppnislaga veiti ekki viðhlítandi lagastoð til að unnt sé að refsa einstaklingum fyrir þá háttsemi, sem þar er lýst.
Varðandi ónóga rannsókn sakargifta segir í dómnum, að ákærðu hafi ekki enn sem komið er bent á nein þau gögn, sem ákæruvaldið hafi vanrækt að leggja fyrir dóminn. Mat á árangri lögreglurannsóknar og þeim atriðum, sem vísað er til, bíði því efnismeðferðar og sæti ekki frávísun vegna ágalla á formhlið máls.
Þá segir í dómnum, að ákæruvaldið byggi ákæru á því að ákærðu beri refsiábyrgð á háttsemi nafngreindra undirmanna, þar á meðal fjölmargra framkvæmdastjóra olíufélaganna þriggja, sem ákæruvaldið telji viðriðna ætluð brot ákærðu og í augum margra myndu teljast sekir, ef ekki jafnsekir og ákærðu um sum þau brot, sem lýst er í ákæru. Verði því vart dregin önnur ályktun en að sömu einstaklingar hafi gerst sekir um brot á 10. gr. samkeppnislaga.
Segir síðan að það sé álit dómsins, að eins og saksókn í málinu sé háttað sé um svo augljósa og hróplega mismunun að ræða í skilningi stjórnsýslulaga og jafnræðisreglu stjórnarskrár, að ekki verður við unað, enda liggi engin rök fyrir í málinu, sem réttlætt geti eða skýrt á haldbæran hátt af hverju ákærðu sæti einir ákæru, þrátt fyrir yfirlýsingu ákæruvaldsins um refsiverð brot annarra yfirstjórnenda olíufélaganna. Sé hér um að ræða bersýnilegan annmarka við útgáfu ákæru, sem feli ekki aðeins í sér brot á lögum um meðferð opinberra mála heldur einnig brot á jafnræðisreglu og leiði af þeim sökum einn sér til þess að vísa beri ákærunni frá dómi.