Í dag var tilkynnt í húsakynnum Kunstforeningen Gammel Strand í Kaupmannahöfn að viðstöddum Hinrik prins og íslensku forsetahjónunum, Ólafi Ragnari Grímssyni og Dorrit Moussaieff, að hafist verði handa á þessu ári um ritun sögu Kaupmannahafnar sem höfuðborgar Íslands í hartnær 500 ár.
Við það tækifæri flutti forseti Íslands ávarp þar sem hann fagnaði þessum áformum enda hefði þessari sameiginlegu sögu Íslands og Danmerkur ekki verið gerð viðeigandi skil, að því er segir í fréttatilkynningu frá embætti forseta Íslands.
Það eru íslensku sagnfræðingarnir Guðjón Friðriksson og dr. Jón Þ. Þór sem hafa tekið að sér verkið sem áætlað er að taki fjögur ár. Stefnt er að því að það komi samtímis út á dönsku og íslensku, í tveimur bindum. Við athöfnina gerði Jón Þ. Þór nánari grein fyrir efnistökum og umfangi verksins.
Að fjármögnun hinnar nýju sögu koma tveir sjóðir. Annars vegar danski sjóðurinn A.P. Møller og Hustru Chastine McKinney Møllers Fond til almene Formaal og hins vegar Styrktarsjóður Baugs Group. Hér er því um dansk-íslenskt samstarfsverkefni að ræða.
Stjórnarformenn beggja sjóðanna, Mærsk McKinney Møller og Jóhannes Jónsson, voru til staðar er tilkynnt var um söguritunina, ásamt Ove Hornby framkvæmdastjóra danska sjóðsins.