Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra og Ólafur Sveinsson, formaður stjórnar Flugstoða ohf., hafa skrifað undir viljayfirlýsingu þar sem Flugstoðum er falinn undirbúningur að byggingu og rekstri samgöngumiðstöðvar í Vatnsmýri í Reykjavík samkvæmt gildandi skipulagi. Nánari tilhögun undirbúnings og framkvæmdarinnar verður ákveðin síðar.
Fram kemur á vef samgönguráðuneytsins, að tilefni viljayfirlýsingarinnar séu áætlanir um byggingu samgöngumiðstöðvar í Vatnsmýrinni sem muni þjóna flugi, Strætó bs., flugrútu og langferðabifreiðum, með tengingu við almenningssamgöngukerfi höfuðborgarsvæðisins.
Í viljayfirlýsingunni kemur einnig fram að lagt sé til að norðaustur-suðvestur flugbrautin á Keflavíkurflugvelli verði tekin í notkun á ný. Um leið er Flugstoðum falið að leggja af samsvarandi braut á Reykjavíkurflugvelli.
Sturla segir, að með viljayfirlýsingunni sé stigið fyrsta skrefið til hefja þessa nauðsynlegu framkvæmd. Segist hann vona að bjóða megi út verkið á næsta sumri og að byggingartíminn verði sem skemmstur.