Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir að komið hafi inn allnokkrar ábendingar frá almenningi um hugsanleg samkeppnislagabrot eða samkeppnishömlur, en stofnunin hefur óskað eftir ábendingum frá almenningi um grunsemdir um brot á samkeppnislögum.
„Þetta er, eins við vissum, hjálplegt tæki, enda góð reynsla af því erlendis. Það er ekki eins og þetta sé nýtt. Samkeppnisyfirvöld hafa tekið við ábendingum um langa hríð og nú í tæpt ár í gegnum heimasíðu stofnunarinnar. Á síðasta ári fengum við tæplega 30 ábendingar gegnum heimasíðuna."
Neytendasamtökin hafa birt upplýsingar um verðhækkanir á vörum undanfarnar vikur. Samtökin hafa hvatt almenning til að vera á verði gagnvart verðbreytingum. Páll Gunnar sagði að Samkeppniseftirlitið væri að skoða þessi mál út frá samkeppnislögum, þ.e. hvort verið væri að brjóta þau. Aðhald Neytendasamtakanna væri hins vegar almennara og snerist m.a. um upplýsingagjöf til neytenda.
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri FÍS, segir hækkanir sem greint var frá um og upp úr áramótum, yfirleitt frá 3-5%, endurspegla m.a. veikingu krónunnar á seinustu mánuðum nýliðins árs. T.d. hafi þá allir gjaldmiðlar nema dollar styrkst gagnvart krónunni um 8%. Auk þess hafi átt sér stað gífurlegar erlendar hækkanir, m.a. hafi heimsmarkaðsverð á kornvörum hækkað um 65-70% frá nóvember 2005 til nóv. 2006 og sykurverð um 40-45%.