Mosfellsbær boðar opinn kynningarfund um Helgafellsveg

Mosfellsbær boðar til opins kynningarfundar um Helgafellsveg, sem mikill styr hefur staðið um undanfarið, á þriðjudaginn klukkan 17, og eru allir boðnir hjartanlega velkomnir á fundinn, að því er segir í yfirlýsingu frá bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokks og VG í Mosfellsbæ nú síðdegis.

Yfirlýsingin er svohljóðandi:

„Vegna fundar Varmársamtakanna um Helgafellsveg inn í Helgafellshverfi.

Í vikunnu boðuðu Varmársamtökin til „almenns borgarafundar“ um málefni Helgafellsvegar inn í Helgafellshverfið. Fundurinn átti að eiga sér stað í dag, laugardaginn 10. febrúar kl. 14:00. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna í bæjarstjórn Mosfellsbæjar fengu hvorki tilkynningu né boð um að mæta á fundinn og sitja í pallborði, fyrr en að morgni fundardagsins. Vegna annars fundar og þessa skamma fyrirvara sáu þeir sér því ekki fært að mæta.

Mosfellsbæ er mikið kappsmál að upplýsa bæjarbúa alla og hlutaðeigandi aðila um skipulagsmál í bænum. Óhætt er að fullyrða að engin framkvæmd á vegum sveitarfélagsins hefur fengið jafn mikla kynningu og Helgafellshverfi og umræddur Helgafellsvegur. Og þessu kynningarstarfi er ekki lokið.

Þriðjudaginn 13. febrúar kl. 17:00 hefur Mosfellsbær boðað til opins kynningarfundar í Listasal Mosfellsbæjar, þar sem rætt verður ítarlega um hönnun og útfærslu tengivegarins. Á fundinum munu Pétur Jónsson landslagsarkitekt og Júlíus Júlíusson byggingaverkfræðingur gera grein fyrir hönnun og útfærslu vegarins. Forsvarsmenn sveitarfélagsins verða viðstaddir og munu taka þátt í umræðum eftir kynninguna.

Eins og að ofan greinir er þessi fundur öllum opin og eru allir hjartanlega velkomnir. Mosfellsbær vill sérstaklega hvetja íbúa í grennd við fyrirhugað Helgafellshverfi til þess að fjölmenna á fundinn.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert