„Má ekki gleyma mannlega þættinum í fjölmiðlafárinu“

Breiðavík.
Breiðavík. mynd/bb.is

Núverandi íbúar Breiðavíkur hafa í kjölfar frétta og umræðna vegna málefna drengja sem vistaðir voru þar á sjötta og sjöunda áratugnum orðið fyrir miklu áreiti og jafnvel mátt þola ofsóknir og hótanir símleiðis.

„Fjölmiðlar hafa mikið haft samband og eins drengir sem voru hér, vinir og vandamenn þeirra og einnig menn sem hafa ekki enn komið fram í sjónvarpi en hafa svipaða sögu að segja. Við höfum reynt að svara öllum eftir bestu getu en þetta mál er náttúrulega ekki okkar að segja. Við höfum einnig fengið hótanir jú, en ég sakast ekki við neinn og tel að þar hafi verið að verki einhver sem vistaður hefur verið hér sem enn er í rugli og hatast við staðinn“, segir Birna Mjöll Atladóttir sem býr í Breiðavík þar sem hún rekur ferðaþjónustu ásamt manni sínum og hefur gert í tæpan áratug.

„Skömmu eftir að við keyptum staðinn árið 1999 kom hingað maður sem hafði verið á heimilinu þegar hann var 6 ára og hann brotnaði niður og sagði okkur sögu sína. Hann er ekki sá eini svo að við vorum búin að velkjast í þessum sögum áður en þær komu fram í dagsljósið núna“, segir Birna.

Alþjóð hefur fylgst með fréttum af voðaverkum sem framin voru á Breiðavíkurheimilinu á ofanverðri síðustu öld og margir hafa undrast af hverju þessi frásögn hafi ekki komið fram á yfirborðið fyrr. En Birna segir að tækifærin til að fletta ofan af þessu máli hafi verið mörg í gegnum tíðina. „Þetta mál hefur komið upp á yfirborðið áður og það oftar en einu sinni. T.d. kom meðferðin á Breiðavíkurheimilinu fram í bók Sævars Ciesielskis, Stattu þig strákur og Sigurdór Halldórsson sagði frá þessu í viðtali við Önnu Kristine sem seinna kom fram í bók hennar.“

Birna vill brýna fyrir fólki að muna eftir mannlegu hliðinni í öllu þessu máli og að fleiri koma við sögu brotaþolar og gerendur. „Í þessu miklu fjölmiðlafári sem er um þetta mál má ekki gleyma að það er að hér voru margir forstöðumenn og ég held að sé í flestum tilfellum verið að tala um einn forstöðumann. Eins hefur þetta áhrif á alla þá sem standa mönnunum nær sem fjallað er um.“

Aðspurð um áreitið segir Birna að þau hjónin hafi breitt bak og geti vel þolað það ef öll þessi umfjöllun muni loks leiða til þess að mennirnir fái bata. „Ég vona að sem flestir af þessum strákum muni koma til Breiðavíkur og geri upp sinn tíma. Nokkrir þeirra hafa nú þegar gert það og sagt að það sé nauðsynlegt fyrir bata þeirra. Hér standa dyrnar opnar“, segir Birna að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert