Um 360 manns mættu á fund framsóknarmanna í Syðsta kjördæmi, sem svo nefnir sig og starfar á Kanaríeyjum. Fundurinn var að venju haldinn á Klörubar og ræðumaður dagsins var að þessu sinni Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, sérstakur gestur fundarins.
Í tilkynningu frá Syðsta kjördæmi segir að á fundinum hafi verið rætt um flest milli himins og jarðar. Inngangsræðuna hafi Guðni haldið með sínu lagi, hann ræddi þingmálin og sló á létta strengi inni á milli.
Þeim hjónum Guðna og Margréti Hauksdóttur var boðið til hátíðarkvöldverðar kvöldið eftir á Klörubar. Þar hélt Guðni einnig smá tölu og féllst á að vera aðstoðarmaður fjöllistamanns, sem skemmti á eftir.