Flestir treysta Geir af stjórnmálaleiðtogunum

Geir H. Haarde, forsætisráðherra
Geir H. Haarde, forsætisráðherra

Flestir þeir, sem afstöðu tóku í skoðanakönnun Fréttablaðsins, eða 32,5%, sögðust treysta Geir H. Haarde, forsætisráðherra, best af stjórnmálaleiðtogunum. Þetta er nokkuð minna en í samskonar könnun blaðsins sem gerð var í júní á síðasta ári þegar 42,6% sögðust treysta Geir best af öllum stjórnmálamönnum.

Nú sögðust 25,7% treysta best Steingrími J. Sigfússyni, formanni Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs en í júní nefndu 18,3% nafn hans.

12,1% sögðust bera mest traust til Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar. Þar á eftir kom Össur Skarphéðinsson en 4,4% sögðust treysta honum best. 2,6% nefndu Guðjón Arnar Kristinsson, formann Frjálslynda flokksins og 1,2% Jón Sigurðsson, formann Framsóknarflokksins.

Þegar spurt var til hvaða stjórnmálamanns væri minnst traust borið um þessar mundir nefndu flestir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, eða 27,3%, Geir H. Haarde var næstur en hann nefndu 11,9% og Björn Bjarnason var í 3. sæti en 8,8% nefndu hann.

Hringt var í 800 kjósendur laugardaginn 10. febrúar og skiptust svarendur jafnt eftir kyni og hlutfallslega eftir kjördæmum. Spurt var „Til hvaða stjórnmálamanns berð þú mest traust um þessar mundir?“ og tóku 53,5% aðspurðra afstöðu til spurningarinnar. Þá var spurt „Til hvaða stjórnmálamanns berð þú minnst traust um þessar mundir?“ og tóku 50,4% afstöðu til spurningarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert