Hægt verði að vinna við gerð tvennra jarðganga samtímis

Gert er ráð fyrir talsverðri jarðgangagerð á næstu árum.
Gert er ráð fyrir talsverðri jarðgangagerð á næstu árum. mbl.is/Sigurður Mar

Í gildandi samgönguáætlun er miðað við að aðeins sé unnið að einum jarðgöngum á hverjum tíma. Í áætlun, sem lögð er fram í samgönguáætlun áranna 2007 til 2018 er lagt til að unnt verði að vinna við gerð tvennra jarðganga samtímis.

Gert er ráð fyrir að 38 milljörðum króna verði varið til jarðganga á tímabilinu og er m.a. miðað við að lokið verði við Héðinsfjarðargöng síðari hluta árs 2009.

Til viðbótar er gert ráð fyrir að unnið verði að gerð jarðganga á milli Hnífsdals og Bolungarvíkur og þeim lokið árið 2010. Þá segir í samgönguáætluninni, að núverandi göng um Oddsskarð séu löngu ófullnægjandi og vegna stækkunar atvinnusvæðis á Austurlandi með tilkomu nýs álvers og nauðsynlegra samgöngubóta í Fjarðabyggð í tengslum við það þurfi að hefja framkvæmdir við Norðfjarðargöng eins fljótt og auðið er. Rannsóknir, hönnun og annar undirbúningur vegna Norðfjarðarganga fer fram 2007 og 2008 og verða þau boðin út á árinu 2009.

Jafnframt verður, vegna nauðsynlegra samgöngubóta milli norður- og suðurhluta Vestfjarða, unnið að rannsóknum, hönnun og öðrum undirbúningi að Arnarfjarðargöngum árin 2007 og 2008. Göngin verða boðin út þannig að hefja megi framkvæmdir strax að lokinni vinnu við Óshlíðargöng.

Í framhaldi af þessum framkvæmdum er lagt til að hafist verði handa við göng undir Lónsheiði og önnur jarðgöng sem síðar verða ákveðin.

Í samgönguáætlun er gert ráð fyrir jarðgöngum undir Vaðlaheiði sem einkaframkvæmd. Er miðað við þær heimildir, sem gert er ráð fyrir í frumvarpi til nýrra vegalaga. Vegagerðinni verður falið á þessu ári að hefja viðræður við hagsmunaaðila. Þar verði fjallað um framkvæmdir, fjármögnun og þátt ríkisins í verkefninu.

Vegna hugmynda um önnur jarðgöng er á áætlunartímabilinu gert ráð fyrir, að unnið verði að frumrannsóknum og áætlunum vegna jarðganga á höfuðborgarsvæðinu, til Vopnafjarðar og á Miðausturlandi. Gert er ráð fyrir að kostnaður við þessar rannsóknir og áætlanagerð verði fjármagnaður af heildarfjárveitingu til jarðganga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert