Ýmsar frumlegar hugmyndir komu fram á íbúaþingi á Bolungarvík um helgina, sem á annað hundrað manns sótti. Að sögn bæjaryfirvalda voru flestar hugmyndirnar raunsæjar og jarðbundnar en einnig komu fram ansi skemmtilegar og óhefðbundnar tillögur. Þannig hafi hugmyndir um geimvísindastöð á Bolafjalli, vatnsorgel á söndunum og spilavíti ásamt lúxus hóteli komið skemmtilega á óvart.
Frumlegasta hugmyndin verði þó að teljast Crazy town, en þangað ferðist fólk með neðanjarðarhraðlest, fer í kláf upp á Bolafjall og stundar þaðan teygjustökk.
Starfsfólk Alta mun næstu vikurnar taka saman niðurstöður þingsins og að kynna þær fyrir bæjaryfirvöldum í byrjun mars. Stefnt er að því nýta niðurstöðurnar í aðalskipulagsvinnuna sem nú stendur yfir. Margir hafa lýst áhuga sínum á því að koma að aðalskipulagsgerðinni í framhaldi af íbúaþinginu. Segir Grímur Atlason, bæjarstjóri, í tilkynningu að ljóst sé að þingið hafu aukið áhuga fólks í sveitarfélaginu á umhverfi sínu.