Jón Ásgeir yfirheyrður næstu þrjá daga

Vitnaleiðslur í Baugsmálinu eru hafnar og er Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs Group, fyrsta vitnið sem verið er að yfirheyra. Áætlað er að sá þáttur taki um þrjá daga. Farið hefur verið yfir grundvallaratriði í málinu, svo sem um stöðu ákærðu hjá viðkomandi fyrirtækjum. Hefur Jón Ásgeir í morgun verið spurður um verklag og vinnureglur fyrirtækjanna og lánastarfsemi Baugs til Gaums. Sagði Jón Ásgeir meðal annars, að hann hefði margoft lýst því yfir að bókhald Baugs sé rétt.

Þá tók hann fram að allir stjórnarmeðlimir Baugs hafi verið meðvitaðir um reksturinn, og viðskiptatengd lán.

Jón Ásgeir hefur einnig verið spurður um störf tölvupóstþjónustunnar Netheima fyrir fyrirtækin og hvort starfsmenn hafi verið kallaðir til að eyða tölvupósti. Sagði Jón Ásgeir að þannig gangi hlutirnir ekki fyrir sig, en að tölvur séu ólíkindatól og gögn eigi það til að eyðast.

Vitnaleiðslurnar sjálfar munu standa til 19. mars, þær eru þær viðamestu í íslenskri réttarsögu, og hafa 115 vitni verið kölluð til. Í morgun voru lögð fram nokkur ný gögn fyrir réttinn, þar á meðal lagði ákæruvaldið fram bréf og áskildi sér rétt til að kalla Jón Ásgeir fyrir dóminn að nýju vegna þessara gagna.

Fram kom hjá Sigurði Tómasi Magnússyni, settum ríkissaksókara í málinu, að kalla þurfi til dómtúlka vegna vitna, sem eiga eftir að koma fyrir réttinn. Þar á meðal þurfi að túlka úr og á ensku, færeysku vegna sjö vitna þaða,, þýsku vegna lögreglumanna frá Lúxemborg og norsku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert