Jónína: Munum standa við skuldbindingar okkar samkvæmt Kyoto-bókuninni

Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra.
Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra. mbl.is

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, krafði Jónínu Bjartmarz umhverfisráðherra um það á Alþingi í dag hvernig íslensk stjórnvöld meti nýja skýrslu milliríkjanefndar um loftslangbreytingar og hvort stjórnvöld ætli að endurmeta áform um uppbyggingu mengandi stóriðju hér á landi í framhaldi af því sem þar kemur fram.

Steingrímur sagði skýrsluna kveða mun fastar að orði um það en fyrri skýrslur að mannlegar athafnir hafi valdið þeim loftslagsbreytingum sem við stöndum nú frammi fyrir. Samanburður á nýju skýrslunni og eldri skýrslum sýni skýrt hversu alvarleg sú þróun sé sem ríki heims standi frammi fyrir. Þá sagði hann Íslendinga hafa fenið vægilega meðhöndlun í Kyoto-bókuninni en að það virðist ekki nóg fyrir íslensk stjórnvöld sem tali nú um að fá viðbótarundanþágur frá henni.

Jónína Bjartmars umhverfisráðherra svaraði því til að niðurstöður skýrslunnar marki tímamót í loftslagsumræðunni í heiminum. Þetta setji aukin þrýsting á ríki heims enda sé hér um alþjóðlegt vandamál að ræða. Ísland sé virkur þátttakandi í baráttunni gegn losun gróðurhúsalofttegunda og Íslendingar muni standa við skuldbindingar sínar samkvæmt Kyoto-bókuninni. Þá sagði hún Íslendinga vissulega geta gert betur í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Stóriðja sé umdeilt mál en ekkert í skýrslunni kalli á breytingar á nýtingu okkar á endurnýjanlegum orkulindum.

„Við verðum innan þeirra marka sem okkur eru sett og losun frá nýjum stóriðjuverum munu ekki fara fram yfir heimildir okkar,” sagði hún. „Það er mikilvægt að hugsa skýrt og forðast að blanda sama ólíkum hlutum. Losun gróðurhúsalofttegunda frá álframleiðslu er hvergi lægri en hér vegna notkunar endurnýtanlegrar orku og þeirra krafna sem hér hafi verið settar. Hitt er svo annað mál hversu langt við viljum ganga í nýtingu endurnýtanlegrar orku á kostnað umhverfissjónarmiða,” sagði hún. Þingmenn stjórnarflokkanna tóku undir það að um alvarlegt mál væri að ræða en lögðu áherslu á þá sérstöðu sem Íslendingar hafi vegna þess hás hlutfalls endurnýjanlegrar orku í orkunýtingu hér á landi.

Þá benti Guðjón A. Kristjánsson á að þótt niðurstöður skýrslunnar væru áhyggjuefni væri það léttir að ekki væri útlit fyrir að loftslagsbreytingar hefðu áhrif á hafstrauma líkt og talið hafi verið til skamms tíma.

Steingrímur J. Sigfússon kvaðst í lok umræðunnar vonsvikinn yfir svörum ráðherra og sagði greinilegt að stjórnvöld séu ónæm fyrir þeirri hættu sem hér sé á ferð og að þau ætli ekki að bregðast við henni.

Umhverfisráðherra vísaði þá á bug öllum staðhæfingum um stóriðjuáform ríkisstjórnarinnar og sagði Íslendinga standa vel hvað þessi mál varði. „Við erum hluti af lausninni en ekki vandanum," sagði hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert