Kvartað yfir blótsyrðum í þingsal Alþingis

Guðjón Ólafur Jónsson, þingmaður Framsóknarflokks, kvartaði yfir því á Alþingi í dag, að Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, kallaði blótsyrði utan úr þingsal að mönnum sem væru í ræðustóli.

Steingrímur kallaði til Guðjóns Ólafs þegar hann var í ræðustól að ræða um málefni Byrgisins í upphafi þingfundar. Eftir þá umræðu vildi Guðjón Ólafur ræða um stjórn fundarins og sagðist kunna illa við blótsyrðagusur utan úr sal. Væri hann alinn upp í kristnum sið og kynni því illa, að menn séu að blóta sínkt og heilagt. Sagði Guðjón Ólafur, að þetta væri í annað skipti á stuttum tíma sem hann yrði vitni að því að Steingrímur æpti blótsyrði yfir þingsalinn.

Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis, sagði að almennt bæri þingmönnum að gæta að orðbragði í þingsalnum.

Steingrímur svaraði og sagði að það væri einkenni á þeim, sem hefðu vondan málstað að verja, og skorti kjark, að forðast að ræða efni málsins. Í umræðunni um Byrgið hefðu þingmenn stjórnarinnar ekki lagt í lagalegar og stjórnskipulegar umræður um ábyrgð ráðherra og vanrækslu þeirra í starfi um heldur hefðu þeir reynt að kenna stjórnarandstöðunni um.

Steingrímur sagði að það kynni vel að vera, að það hendi hann stundum að muldra blótsyrði og það þætti ekki tiltökumál í því umhverfi sem hann væri alinn upp í. Slíkt ætti ekki að valda mönnum hugarangri, jafnvel þótt þeir séu aldir upp í kristilegu siðgæði og sýni það í ræðustóli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert