Réttarhöld í Baugsmálinu hafin í héraðsdómi

Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs, og Tryggvi Jónsson, fyrrum aðstoðarforstjóri, …
Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs, og Tryggvi Jónsson, fyrrum aðstoðarforstjóri, í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. mbl.is/ÞÖK

Réttarhöld í Baugsmálinu svonefnda hófust í Héraðsdómi Reykjavíkur nú í morgun með yfirheyrslu yfir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, forstjóra Baugs Group. Verður yfirheyrslum yfir honum haldið áfram fram eftir vikunni. Vitnaleiðslurnar í málinu eru þær viðamestu, sem um getur í íslenskri réttarsögu og munu væntanlega standa næsta mánuðuðinn. Yfir 100 vitni verða yfirheyrð.

Réttarhöldin sjálf, eða aðalmeðferðin, snúast um sekt eða sakleysi þriggja einstaklinga, þeirra Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Tryggva Jónssonar og Jóns Geralds Sullenberger. Vitnaleiðslurnar einar og sér í Baugsmálinu standa til 19. mars samkvæmt vitnalista sem Morgunblaðið hefur undir höndum. Sakborningarnir þrír verða yfirheyrðir fram til 23. febrúar og kemst fyrsta vitnið ekki að fyrr en 26. febrúar og er það Hreinn Loftsson, stjórnarformaður Baugs Group, sem er fyrstur í röðinni.

Segja má að málið, sem nú er fyrir dómi, sé síðari hluti Baugsmálsins þar sem þrír eru ákærðir og koma fyrir dóminn vegna ákvörðunar setts ríkissaksóknara um að endurákæra í 18 liðum eftir að dómstólar höfðu vísað frá 32 liðum af upphaflegri ákæru. Átta ákæruliðir fengu hins vegar efnismeðferð í héraði þar sem sex sakborningar voru sýknaðir í mars 2006. Sýknudómi fjögurra þeirra í sex ákæruliðum var síðan áfrýjað til Hæstaréttar sem sýknaði öll 25. janúar sl. Lauk þar með „fyrri hluta" Baugsmáls.

Verjendur í Baugsmáli ásamt gögnum sem liggja fyrir dómnum,
Verjendur í Baugsmáli ásamt gögnum sem liggja fyrir dómnum, mbl.is/Brynjar Gauti
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert